Fyrirtæki fá ekki hugmyndir heldur fólkið - Miðaldra konur og grænar bólur
June 9, 2022

Fyrirtæki fá ekki hugmyndir heldur fólkið - Miðaldra konur og grænar bólur

Það var verið að ráða í stöðu sinfóníuleikara og yfirleitt voru fleiri karlkyns hljóðfæraleikarar ráðnir. 

Þau sem voru að velja hljóðfæraleikarana vildu koma í veg fyrir að þau væru ómeðvitað að velja karlmenn framyfir konur óháð hæfni. Það var þá brugðið á það ráð að biðja hljóðfærleikarana um að spila á bak við tjöldin til að fyrirbyggja ómeðvitaða hlutdrægni.

Niðurstöðurnar komu á óvart því eftir áheyrendaprufurnar kom í ljós að kynjahlutfallið hafði lítið breyst og enn voru fleiri karlmenn valdir.

Þegar þetta var skoðað betur áttuðu þau sig á því að hljóðfæraleikararnir klæddust sinfóníu klæðnaði þar sem konur klæddust háum hælum og þá heyrðist hvort að viðkomandi var karl eða kona áður en þau byrjuðu að spila þegar þau gengu á sviðinu.

Það var því ákveðið að þátttakendur í áheyrendaprufunum myndu ganga á sviðið á sokkunum á bak við tjöldin og eftir það urðu niðurstöðurnar þær að kynjahlutfallið varð jafnara.

Ef þú ert með heila þá ert þú með fordóma

Guðrún Högnadóttir frá Franklin Covey sagði þessa dæmisögu á Stjórnvísi fundi fyrir skömmu. Hún talaði um að ef viðkomandi er með heila þá er hann/hún með fordóma og ómeðvituð hlutdrægni á sér stað. Því þarf að finna skapandi lausnir til að fyrirbyggja að ómeðvituð hlutdrægni hafi áhrif á val starfsmanna.

Rannsóknir benda á að ef fyrirtæki vilja vera með starfsmenn sem koma saman með skapandi lausnir, þá skiptir máli að velja fjölbreyttan hóp fólks með mismunandi bakgrunn og sjónarmið til að starfsmenn vaxi og verði meira skapandi.

Fólk úr sveit eða miðaldra konur

Á þessum sama Stjórnvísi fundi var starfsmaður frá stóru íslensku fyrirtæki að tala um að hann kysi að ráða fólk úr sveit því að hans upplifun væri sú að þeir starfsmenn væru skilvirkari en aðrir. Hann nefndi einnig við mig að hann fengi grænar bólur þegar miðaldra konur væru að sækja um stöðu í hans teymi. 

Heilinn okkar er ekki bara fordómafull heldur leitar hann líka eftir því að staðfesta trú okkar (confirmation bias) og í þessu tilfelli eru starfsmenn úr sveit ekki endilega skilvirkari en aðrir heldur leitar heilinn á viðkomandi eftir atvikum sem staðfesta trú hans og minnkar vægi á þeim atburðum sem sýna annað.

Það má vel vera að fólk úr sveit sé skilvirkara en aðrir en til þess að teymið sem þessi starfsmaður stýrir sé að auka líkurnar á því að vera með fjölbreyttari og meira skapandi meðlimi þá þyrfti viðkomandi að skapa leiðir til að koma í veg fyrir ómeðvitaða hlutdrægni. Mögulega væri miðaldra kona akkúrat einstaklingurinn sem passar vel með þessu teymi í staðinn fyrir enn annar einstaklingur úr sveit.

Fara á mis við aukna sköpunargleði

Þetta er mjög gott dæmi um fyrirtæki sem er líklega að fara á mis við aukna sköpunargleði og tækifæri sem verða til þegar starfsmenn koma saman með mismunandi bakgrunn og sjónarmið. 

Fyrirtæki fá ekki hugmyndir heldur fólkið og því skiptir gríðarlega miklu máli að þau sem ráða inn starfsmenn skapi leiðir til að koma í veg fyrir ómeðvitaða hlutdrægni líkt og dæmisagan um sinfóníuleikarana sýndi.

Spjallaðu við okkur um sköpunargleði

Hafðu samband