Orðið sköpunargleði samanstendur af tveimur örðum, að skapa og gleði. Það kemur því ef til vill ekki á óvart að rannsóknir hafa sýnt að þeir sem eru glaðir skapa meira og svo er þetta einnig öfugt því fólk verður glatt þegar það skapar. Þegar rósir eru ræktaðar þarf að byggja skjólvegg og þetta er sambærilegt með sköpunargleðina, skapa þarf rétta umhverfið. En hvernig er þetta umhverfi skapað?
Allir geta skapað
Algeng mistök fólks er að segja sjálfu sér að það sé ekki skapandi. Allir geta skapað ef þeir hafa trú á því og skilja að það að skapa þarf ekki að vera eitthvað stórt. Allir eru að skapa eitthvað daglega t.d. hvernig þeir setja saman fötin á morgnanna, hvernig maturinn er framreiddur og hvernig samtölin sem þeir eiga yfir daginn fara fram.
Gleði og jákvæðni
Gleði og jákvæðni skiptir lykilmáli. Margar leiðir er hægt að fara til að byggja upp gleðilegan vinnustað. Sem dæmi má nefna að skemmtilegt er að halda vinnustaðakeppni þar sem farið er í keppni um eitthvað sem hefur lítinn tilgang og fólk fær að ráða hvort að það taki þátt. Þetta gæti verið keppni um að vera fyrstur að hylja samstarfsmann sinn með post-it miðum eða fyrstur með að skrifa setningu á hvolfi.
Dans og tónlist
Það að dansa er góð hreyfing sem kemur blóðstreyminu af stað og veldur gleði. Þetta eykur sköpunargleðina og því er tilvalið fyrir samstarfsmenn að setja gott lag í spilarann og taka nokkur spor saman. Tónlist í barokk stíl er einnig sögð auka sköpunargleði.
Skráning hugmynda
Góð leið til að efla sköpunargleði er að ganga með litla bók á sér og skrifa niður punkta, setningar eða jafnvel teikna myndir til að festa hugmyndirnar.
Heilaþjálfun
Heilinn er líkt og líkaminn, hann þarf þjálfun. Gott er að þjálfa heilann með því að lesa mikið og þá mismunandi efni því það gefur oft nýja sýn og skapar hugmyndir. Einnig er gott að ræða við fólk og heyra mismunandi skoðanir.
Sköpunarmenning
Mikilvægt er að skapa menningu þar sem misgóðar hugmyndir mega flæða því besta leiðin til að fá góðar hugmyndir er að fá margar hugmyndir, að vera svokallaðir hugmyndabóndar. Höfum úrval og látum 100.000 blóm blómstra. Gott er að nýta aðferðir þankahríðar til að ýta undir mismunandi hugmyndir og flóðargátt sköpunargleðinnar opnast um leið og við hættum að vera hrædd við mistök.Það eru ýmsar leiðir sem hægt er að nýta til að auka sköpunargleðina og nokkuð ljóst er að það borgar sig að auka hana. Samkeppnisforskot getur myndast með nýjum hugmyndum og starfsánægjan eykst þegar fólk fær tækifæri til að skapa. Gleðilega sköpun :)