Nýsköpunarstefna

Af hverju þitt fyrirtæki þarf nýsköpunarstefnu á nýrri gullöld

Hraði á dreifingu nýrrar tækni og efnis er að aukast til muna. Það tók heimasímann um eina öld að komast inn á flest heimili í Bandaríkjunum, litað sjónvarp um 40 ár og farsímann um 10 ár. Eftir einungis hálft ár voru notendur Snapchat búnir að senda milljarð mynda og mest áhorfða YouTube myndbandið (Gangnam Style) var einungis 159 daga að fá milljarð áhorfa. Það tók Facebook 3 ár að ná til 50 milljón notenda á meðan Pokémon Go var einungis 10 daga að ná til sama fjölda.

Við lifum á tímum fjórðu iðnbyltingarinnar þar sem breytingar gerast hratt og viðskiptavinir gera meiri kröfur um hraða og framúrskarandi vörur og þjónustu.

Þessar miklu breytingar skapa gífurleg tækifæri og það er talað um að við séum að upplifa upphaf nýrrar gullaldar.

Til þess að grípa tækifærin og vera samkeppnishæf þá þurfa fyrirtæki að einbeita sér að nýsköpun. Það er mjög mismunandi hvernig nýsköpun hentar fyrirtækum og fer það t.d. eftir því í hvaða iðnaði þau eru og hvaða hæfileika og getu fyrirtækið býr yfir.

Það er mikilvægt fyrir fyrirtæki að vera reglulega að meta og velja sér nýsköpunarstefnu sem hentar þeim.

Tveir pólar nýsköpunar

Þegar talað er um nýsköpun, er oft talað um tvo póla. Á öðrum pólnum er nýsköpun sem snýst um stigvaxandi breytingar og á hinum pólnum eru róttækar breytingar. Þegar fyrirtæki eru að setja sér nýsköpunarstefnu þurfa þau að skoða hvar það hentar þeim að vera í tengslum við þessa póla, hvernig blanda hentar því fyrirtæki.

Öll fyrirtæki þurfa að vera með stigvaxandi nýsköpun sem snýst um það að bæta það sem er gert nú þegar. Þetta gæti t.d. verið að innleiða straumlínustjórnun (Lean), breyta hvernig viðskiptavinir nálgast vöruna eða einbeita sér að því að bæta núverandi vörur og þjónustu. Þetta eru smærri breytingar og öll fyrirtæki þurfa að einbeita sér að þessu, að bæta sig smátt og smátt.

Hinn póllinn eru róttækar breytingar, þetta eru mun áhættumeiri breytingar en þegar þær ganga vel þá er ávinningurinn líka mun meiri. Hérna eru fyrirtæki að koma með nýjungar á markað og þetta er skilgreint þannig að samtímis breytist tæknin og viðskiptamódelið. Það er mjög misjafnt hversu mikið fyrirtæki þurfa að einbeita sér að þessari tegund af nýsköpun en það fer allt eftir þeirra iðnaði og hversu hratt hann breytist.

Róttækar breytingar Nespresso

Nespresso er gott dæmi um róttæka nýsköpun sem breytti kaffi iðnaðinum. Bæði var um að ræða nýja tækni og nýtt viðskiptamódel, en það þurfti að prufa nokkur viðskiptamódel áður en það sem skilaði þeim góðum árangri var fundið.

Markmið Nespresso var að gera fólki kleift að útbúa fullkominn espresso kaffibolla á mjög einfaldan máta. Árið 1976 var fengið einkaleyfi fyrir tækninni við að útbúa þennan góða kaffibolla. Þeirra fyrsta viðskiptamódel snérist um að sinna matsölustöðum og skrifstofum en það gekk ekki nægjanlega vel. Það var ákveðið að ráða nýjan framkvæmdarstjóra og hann breytti viðskiptamódelinu þannig að þau fóru að sinna einstaklingum. Þegar þau sáu að þetta var að virka þá byrjuðu þau að selja kaffifyllingar á Internetinu og opnuðu svo búðir á lykilstöðum.

Það er gaman að heyra sögur af fyrirtækjum sem hafa náð að nýta góðar hugmyndir vel en því miður er það ekki alltaf raunin.

Góðar hugmyndir þurfa góða nýsköpunarstefnu

Kodak voru með forystu á ljósmyndamarkaðinum í mörg ár og það sem gerði þeim kleift að vera á toppnum er því miður það sama og felldi fyrirtækið.

Þau einbeittu sér að því að skapa og þau fundu upp fyrstu stafrænu myndavélina árið 1975. Þau trúðu því að þetta væri framtíðin, en því miður voru þau ekki með nýsköpunarstefnu sem gerði þeim kleift að nýta þessa nýjung. Þau héldu í stað þess áfram að vinna með og bæta það sem hafði skilað þeim árangri  sem voru filmuvélar og framköllun, og það fór ekki nægur kraftur í stafrænar myndavélar og þannig misstu þau leiðandi stöðu sína.

Fyrirtæki þurfa að gefa sér góðan tíma til þess að þróa og reglulega endurmeta nýsköpunarstefnu sína til þess að sjá og nýta sér góð tækifæri.

En það er ekki nóg að hafa einungis góða nýsköpunarstefnu, heldur þurfa fyrritæki t.d. að passa upp á að menningin þeirra styðji við nýsköpun, þau þurfa að nýta sér rétta ferla og stjórnendur spila lykilhlutverk.

Heimildir

Agenda in focus: the fourth industrial revolution – https://www.weforum.org/focus/the-fourth-industrial-revolution

Julian Birkinshaw – New ways of working in the post-knowledge era – https://www.youtube.com/watch?v=UeQkmYJFIhw

The Innovation Paradox: Why Good Businesses Kill Breakthroughs and How They Can Change – https://www.amazon.com/Innovation-Paradox-Businesses-Breakthroughs-Change/dp/1609945530/ref=sr_1_1

The Kodak story – https://en.wikipedia.org/wiki/Kodak_DCS

The Nespresso story – https://www.nestle-nespresso.com/about-us/our-history

We have reached the second half of the chessboard – http://hernaes.com/2016/10/10/we-have-reached-the-second-half-of-the-chessboard/

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *