Skapandi og skilvirk teymi
June 9, 2022

Skapandi og skilvirk teymi

Rannsakandi að nafni William Muir framkvæmdi mjög áhugaverða rannsókn. Hann hafði mikinn áhuga á skilvirkni og hann fékk þá hugmynd að hann gæti rannsakað hænur því að það er auðvelt að mæla skilvirkni þeirra með því að telja fjölda eggja. 

Tilraunin fór þannig fram að hann fylgdist með hópi af hænum í búri sem verptu fleiri eggjum en hænur í öðrum búrum, þær sem sagt stóðu sig vel sem teymi.

Til samanburðar setti hann saman hóp af hænum þar sem einungis svokallaðar ofurhænur voru sérvaldar í hópinn úr mismunandi búrum. Þessar ofurhænur voru einstaklega skilvirkar og verptu mikið, og fyrir hverja nýja kynslóð voru eingöngu skilvirkustu hænurnar valdar til að fjölga sér.

Hann fylgdist með sex kynslóðum í þessum hópum og hann komst að því að blandaði hópurinn var að dafna vel og skilvirkni hópsins hafði aukist um 160%. Ofurhænuhópurinn var hins vegar áberandi öðruvísi því allar hænurnar voru dánar nema þrjár. Hænurnar höfðu goggað hvora aðra til dauða og þessar þrjár sem eftir voru litu mjög illa út, nánast fjaðralausar og skilvirkni þeirra hafði fallið mikið.

Ástæðan fyrir þessu var talin vera að sú hæna sem verpir hvað mest í sínum hópi gerði það vegna þess að hún fór illa með aðrar hænur til að ná sínum árangri. Þessi slæma hegðun gagnvart öðrum gekk í ættir og nokkrum kynslóðum síðar voru hænurnar orðnar geðveikar. 

Svipuð dæmi má finna um plöntur sem gefa vel af sér en taka næringu frá nærliggjandi plöntum og einnig má finna mikið af dæmum um fólk sem gerir slíkt hið sama.

Samsetning skapandi teyma

Ef markmiðið er að vera með teymi sem eru skapandi þá skiptir mjög miklu máli að ráða fólk sem vill að aðrir í kringum þau nái árangri. Það skiptir líka máli að velja fjölbreyttan hóp fólks með mismunandi bakgrunn og sjónarmið.

Dr. Amabile sem starfar hjá Harvard er einn fremsti rannsakandi sköpunargleðinnar. Hún talar um að það séu þrír eiginleikar sem teymismeðlimir þurfi að hafa til að teymið geti verið skapandi.

1. Teymismeðlimir þurfa að vera spenntir fyrir verkefninu.

2. Teymismeðlimir þurfa að vera viljugir til að aðstoða aðra teymismeðlimi í gegnum erfið tímabil og bakslög.

3. Hver og einn í teyminu þarf að vera meðvitaður um einstaka þekkingu og sjónarhorn allra teymismeðlima.

Þegar teymi uppfylla þessi skilyrði verða þau framúrskarandi. Innri hvati meðlima eykst og einnig eykst þekking þeirra og hæfileiki þeirra til að skapa.

Leiðtogar þurfa að beita virkri hlustun

Til að svona teymi geti verið sett saman þurfa yfirmenn að hafa mikla þekkingu á samstarfsfólki sínu. Þeir þurfa að geta metið starfsmenn út frá því hvernig viðkomandi myndi haga sér og vinna með öðrum í teyminu. Einnig þarf að vera vitneskja um hvernig viðkomandi leysir vandamál og hvað drífur þau áfram. 

Það er ekki auðvelt að setja saman svona teymi því yfirmenn þurfa að þekkja starfsfólkið svo vel. En samkvæmt hugmyndafræði þjónandi forystu er það einmitt eitt af mikilvægustu hlutverkum yfirmannsins að sýna fólki einlægan áhuga og kynnast því vel með virkri hlustun.

Rannsóknir benda til að þegar yfirmenn eru með þessa mikilvægu þekkingu að þá er hægt að setja saman mjög kröftug teymi sem skila meiru en summa meðlima.

Of líkir teymismeðlimir

Því miður er það algengt að sett eru saman teymi þar sem teymismeðlimir eru of líkir og þau vaxa ekki með samvinnunni. Oft finnur hópurinn lausnir fljótt og án þess að rekast mikið saman, en þessi teymi gera lítið af því að auka sköpunargleði hópsins og þekkingu þeirra.

Þannig að það skiptir máli að þekkja starfsmenn mjög vel til að geta sett saman hóp af fólki þar sem meðlimir vilja sjá aðra vaxa og dafna til að þau nái meiri árangri sem heild, líkt og sagan um hænurnar sýndi.

Spjallaðu við okkur um sköpunargleði

Hafðu samband